Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 600  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Eftir samfelldan afkomubata ríkissjóðs á hverju ári frá 2009 og til þess að jöfnuði var náð árið 2013 hefur þróunin verið hæg á árunum 2014–2015 og jákvæð niðurstaða fyrst og fremst byggst á óreglulegum liðum eins og óvenjumiklum arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Horfur um afkomu ársins 2016, að fram komnum breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, eru á svipuðum nótum, jafnvel að afkoman versni heldur en hitt. Þessi þróun ríkisfjármálanna, þrátt fyrir áframhaldandi og samfelldan efnahagsbata allt frá árinu 2011, er áhyggjuefni. Tekjustofnar ríkissjóðs hafa markvisst verið veiktir í tíð þessarar ríkis­stjórnar sem samanlagt nemur a.m.k. 35–40 milljörðum kr. Efnahagsleg staða landsins gefur þó tilefni og tækifæri til að styrkja innviði og velferð samfélagsins með markvissum hætti. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fer ekki vel með þetta tækifæri að mati Vinstri grænna. Í sameiginlegum tillögum stjórnarandstöðunnar má sjá að hægt er að leggja aðrar áherslur við stjórn landsins, ef vilji er til, og nýta á sanngjarnari hátt bætta afkomu ríkissjóðs. Þar er lögð áhersla á bætt kjör almennings og þeirra sem lægstar tekjur hafa, á heilbrigðisþjónustu, menningu og menntamál og á fjárfestingar í umhverfi og innviðum sam­félagsins um allt land. Með þeim hætti teljum við að best verði unnið gegn ójöfnuði á Íslandi og tryggt að aukin hagsæld skiptist á réttlátan hátt.
    Frumvarp til fjárlaga ársins 2016 er lagt fram með afgangi á heildartekjujöfnuði að fjár­hæð 15,3 milljarðar kr. Breytingartillögur ríkisstjórnarinnar lækka hann niður í 10,7 milljarða kr.

Í milljörðum kr. Fjárlagafrumvarp Breytingartillaga
við 2. umr.
Samtals
Frumtekjur 679,7 5,1 684,8
Frumgjöld 606,6 10,6 617,2
Frumjöfnuður 73,1 -5,5 67,6
Vaxtatekjur 16,6 -0,9 15,8
Vaxtagjöld 74,4 -1,8 72,6
Vaxtajöfnuður -57,8 1,0 -56,9
Heildartekjur 696,3 4,2 700,6
Heildargjöld 681,0 8,8 689,8
Heildarjöfnuður 15,3 -4,6 10,7

    Í frumvarpinu og meðfylgjandi ríkisfjármálaáætlun kemur enn og aftur berlega í ljós að fjárlagaáherslur og ríkisfjármálastefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur þau áhrif í reynd að byrðarnar léttast hjá efnaðasta hópi landsmanna og þeim er velt yfir á hina efnaminni með ósanngjarnri dreifingu skattbyrðinnar og skiptingu opinberra fjár­muna. Hér er um að ræða ríkisfjármálastefnu sem einkennist af mikilli óvissu um stóra þætti er varða bæði útgjöld og tekjur ríkissjóðs. Áhrif kjarasamninga eru umtalsverð. Ríkisstjórnin hefur valið að afsala ríkinu miklum tekjum þar sem sett er í forgang að fella niður auðlegðar­skatt, lækka veiðigjöld, tekjuskatt í miðþrepi, tolla og efra þrep virðisaukaskatts og fella niður vörugjöld en á móti er matarskattur hækkaður og þverskallast við að lækka trygginga­gjald. Þessar áherslur vekja furðu, ekki síst í ljósi þess að á sama tíma eru viðamiklir mála­flokkar vanfjármagnaðir. Má þar nefna heilbrigðismál, almannatryggingar, menntamál, sam­göngumál o.fl.
    Ríkisfjármálastefna sem er byggð upp á nýfrjálshyggju og óvissu er óábyrg og ranglát stefna sem gagnast helst stóreignafólki og auðmönnum en láglaunafólk, öryrkjar og eldri borgarar í landinu og heimili þeirra eru látin reka á reiðanum og reikningurinn fyrir ónóga fjárfestingu í innviðum samfélagsins er sendur inn í framtíðina. Afkoma fjárlagafrumvarpsins byggist því á því að svelta fjárvana þjóðþrifamál þó að langt sé síðan ytri aðstæður hafa verið þjóðarbúinu hagfelldari.

Óviðunandi vinnubrögð í fjárlagavinnunni.
    Afar mikilvægt er að vandað sé til verka þegar kemur að vinnu við fjárlagafrumvarpið sem er stærsta þingmál hvers vetrar og tryggja þarf að traust ríki hjá almenningi á því hvernig fjármunum úr ríkissjóði er úthlutað. Ýmislegt er gagnrýnivert, m.a. skortur á samráði við þingið og nefndir þess vegna hinna veigamiklu samninga ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um stöðugleikaframlög fallinna fjármálafyrirtækja í stað stöðugleikaskatts. Stöðugleikaframlagið er kynnt sem einn af grunnþáttum ríkisfjármálastefnunnar þó að það hafi skilað mun rýrari niðurstöðu en kynnt hefur verið í ýmsum glærusýningum fjármála­ráðherra og forsætisráðherra og er með öllu óútfært bæði í fjárlögum næsta árs og í ríkis­fjármálastefnunni.
    Ekki er hægt að láta óátalið þau vinnubrögð sem meiri hluti fjárlaganefndar viðhefur vegna óskiptra liða eða svokallaðra safnliða. Meiri hluti fjárlaganefndar er í raun að úthluta hundruðum milljóna króna, að eigin geðþótta, af safnliðum sem ráðuneytunum var falið að gera með samræmdum, faglegum og gagnsæjum hætti.
    Á síðasta kjörtímabili var þessu breytt m.a. vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar og þing­manna úr öllum flokkum sem hafa setið undir því að verið sé að hygla þeim sérstaklega sem aðgang hafa af fjárlaganefndarfólki. Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar nú eru dæmi um gamaldags vinnubrögð þar sem 240,2 millj. kr. er dreift í margs konar verkefni sem tilheyra í raun safnliðum. Má í þessu samhengi nefna verkefni Norðvesturnefndar sem í eru settar 285 millj. kr. en ekki hafa verið rædd og engin rök hafa verið færð fyrir í fjárlaganefnd. Nær væri að efla og styrkja byggða- og sóknaráætlanir þar sem heimafólk forgangsraðar eftir faglegu ferli. Almenningur verður að geta treyst því að fjármunum sé úthlutað með faglegum og gagnsæjum hætti en ekki eftir geðþótta þingmanna hverju sinni.
    Vonbrigðin eru þó helst að hér er um að ræða fjárlög sem eru laus við alla framtíðarsýn þegar kemur að framtíðaruppbyggingu innviða samfélagsins, sjálfbærni efnahagslífsins, við­haldi og vexti grunnstoða samfélagsins, ábyrgri umhverfisstefnu og trúverðugum lausnum á mjög viðkvæmu ástandi íslensks hagkerfis bæði í nútíð og þegar litið er til næstu ára.

I. Óvissuþættir frumvarpsins.
Fjármagnskostnaður.
    Gert er ráð fyrir að fjármagnskostnaður lækki einungis um 11,5 milljarða kr. til ársins 2019 og verður hann þó nánast óbreyttur til þess árs eða um 68 milljarða kr. árin 2017 og 2018. Í fjárlögum 2015 er gert ráð fyrir að vaxtagjöld nemi 82,5 milljörðum kr., lækki í ríf­lega 77 milljarða kr. samkvæmt stöðuskjali frumvarps til fjáraukalaga 2015 en lækki í 72,6 milljarða kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 og breytingartillögum og verði óbreytt þar til þau lækka niður í 62,9 milljarða kr. árið 2019. Í því sambandi ber að hafa í huga að í endurmati ársins 2015 er gert ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs verði 5,7 milljörð­um kr. lægri en í fjárlögum 2015. Sú lækkun skýrist að stærstum hluta af lægri spá um stýri­vexti á þessu ári en gengið var út frá í forsendum fjárlaga sem hefur m.a. áhrif á vaxtagjöld vegna ríkisbréfa, ríkisvíxla og skuldabréfs við Seðlabanka Íslands. Þannig virðist lækkun vaxtagjalda lítil í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um að lækka þau og virðist einkum skýrast af uppgreiðslu skuldabréfs gagnvart Seðlabanka Íslands eða um 4,9 milljarða kr. Ein helsta forsenda fyrir aukinni niðurgreiðslu skulda liggur í áformum um að nýta hluta tekna af stöðugleikaframlagi, stöðugleikaskatti eða gjaldeyrisuppboðum Seðla­bankans til að greiða upp 103,5 milljarða kr. eftirstöðvar af skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands.

Stöðugleikaframlagið.
    Stöðugleikaframlagið, samkomulag ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja, sem kynnt var með glærusýningu í Hörpu í júní sl. er gagnrýnivert, bæði villandi framsetning ríkisstjórnarinnar og samráðið við þingið vegna málsins sem hefur verið hverfandi allt kjörtímabilið.
    Með stöðugleikaframlaginu afsalar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ríkis­sjóði gríðarháum tekjum sem nema 39% stöðugleikaskatti á þrotabúin með því að bjóða þeim afslátt af þeim skatti ef þau ljúka nauðasamningum fyrir árslok 2015.
    Einnig er umhugsunarvert hversu eftirgefanlegt samkomulag ríkisstjórnarinnar er við er­lenda kröfuhafa vegna vaxtaívilnunar og má í því ljósi benda á umsögn Ríkisskattstjóra um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármála­fyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki (þingskjal 175, 172. mál). En þar segir:

    „Að mati ríkisskattstjóra leysir umrædd lagabreytingartillaga eingöngu þann vanda sem snýr að erlendum móttakendum vaxta – óleystur væri þá sá vandi sem eftir stæði vegna innlendra kröfuhafa og þeirrar staðgreiðsluskyldu sem á er kveðið í lögum nr. 94/1996.“

    Það er því ljóst að stór hópur kröfuhafa mun ganga keikur frá samkomulaginu við Sjálf­stæðisflokk og Framsóknarflokk enda er það mun betra fyrir kröfuhafana en ríkisstjórnin lagði upp með. Þar með ber ríkissjóður og um leið almenningur, mun rýrari hlut úr býtum en með stöðugleikaskattsleiðinni og óvissa ríkir enn um það hvenær almenningur og lífeyris­sjóðir losna úr fjármagnshöftum.

Sala Landsbankans.
    Þó að ríkisstjórnin hafi sett sér þau markmið að selja allt að 30% af eignarhluta sínum í Landsbanka Íslands, er ekki gert ráð fyrir hagnaði af þeirri sölu samkvæmt frumvarpinu sem hlýtur að teljast óvenjuleg áætlanagerð í ljósi bókfærðrar stöðu félagsins og framtíðarhorfa. Söluverðmætið kemur ekki heldur fram í lækkun fjármagnskostnaðar þó svo að ætlunin sé samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni að verja andvirðinu til uppgreiðslu skulda. Þessi óvissa með söluferli Landsbankans þarf ekki að koma á óvart þar sem annar stjórnarflokkurinn hefur ályktað gegn sölu bankans á síðasta landsfundi sínum og hlýtur því að vera töluverð óvissa um afdrif málsins. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggst gegn sölu þessa hlutar af ýmsum orsökum, m.a. þeim að bankinn skilar eiganda sínum verulegum arði en líka vegna þess að á meðan ríkið hefur jafnrík tök á bankakerfinu og nú er eru mikil tækifæri til að stokka upp kerfið, aðskilja viðskipta- og fjárfestingarbanka og skipuleggja skynsamlegra bankakerfi til framtíðar.
    Gert er ráð fyrir að lækkun heildarskuldanna verði um 20% af VLF í árslok 2019. Lækkun á skuldahlutfallinu má að stórum hluta rekja til vaxtar í landsframleiðslunni því að áætlað er að nafnvirði hennar aukist um 29% á tímabilinu, en einnig er gert ráð fyrir að nafnvirði skuldanna lækki um u.þ.b. 15% á tímabilinu vegna sölu á hlut í Landsbanka og uppgreiðslu skuldabréfs við Seðlabanka eins og rakið hefur verið. Almennur rekstur ríkisins mun því að litlu leyti greiða niður skuldirnar.

Óvissa um hagræn áhrif nýgerðra kjarasamninga.
    Því miður hafa deilur á vinnumarkaði einkennt allt þetta kjörtímabil. Í sjálfu sér er ekki að furða í ljósi sögunnar að óvissa ríki um áhrif kjarasamninga. Verst er þó að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur samningsvilji verið lítill við vinnandi stéttir sem leitað hafa réttilega eftir launaleiðréttingum og með meiri framsýn og samningsvilja hefði líklega verið hægt að lenda samningum við launafólk á annan hátt en gert var með tilheyrandi átökum, verkföllum og ítrekuðum lagasetningum á launafólk sem ekki hafa sést í jafnmiklum mæli áratugum saman. Fjármálaráðherra viðurkennir óvissuþáttinn vegna nýgerðra kjarasamninga í ríkisfjármála­stefnu ríkisstjórnarinnar og áhrif þeirra á hagkerfið (bls. 6 í Stefna og horfur) þar sem vonast er til að gott samstarf takist milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um að verja þann árangur sem náðst hefur í almennum lífskjarabata.
    Þrátt fyrir óvissuna er fullyrt í fjárlagafrumvarpinu að með lækkandi skattbyrði, aukinni atvinnu og hækkandi launum muni kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna heimilanna í landinu halda áfram að aukast. Vert er að hafa í huga að loforð núverandi ríkisstjórnar um ofan­greindar aðgerðir eru langt í frá að vera útfærð með hag alls almennings í huga. Því leggur stjórnarandstaðan til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki með sama hætti og laun í 300.000 kr. Því markmiði verði náð á árinu 2017.
    Lækkandi skattbyrði hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar gagnast best fyrirtækjum og stór­eigna- og hátekjufólki. Vert er að vekja athygli á að þrátt fyrir fögur fyrirheit læddi ríkis­stjórnin ójafnaðarstefnu sinni inn í samningagerðina í kjarasamningum almenna vinnu­markaðsins sumarið 2015, að öllum líkindum til þess að um hana yrði sem minnst umræða og hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar ítrekað bent á að skattbreytingarnar séu liður í kjara­samningum og þar af leiðandi séu þær nánast hafnar yfir gagnrýni. Því er til að svara að hægt hefði verið að grípa til annarra skattalækkana í samningum við aðila vinnumarkaðarins, sem hefðu betur stutt við tekjujöfnun og haft minni neikvæð þensluáhrif. Spyrja má hvers vegna ekki var frekar farin sú leið að lækka tryggingagjaldið. Til lengri tíma litið er trygginga­gjaldið ígildi skatts á launatekjur. Lækkun þess hefði þannig haft áhrif á allan launatekju­skalann öfugt við lækkun skatthlutfallsins, sem hefur engin áhrif á þá með lægstu launin. Hækkandi laun fólks þýða ekki sjálfkrafa kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna. Enda kemur það skýrt fram í verðbólguspá Hagstofunnar að kaupmáttur ráðstöfunartekna dregst saman strax á næsta ári úr 7,9% 2015 í 6,7% 2016 og í 4,9% 2017 í 3,3% 2018, sbr. töflu 5, vinnumarkaður og nýting framleiðsluþátta, Peningamál SÍ, 2015 1 og að verðbólga muni strax árið 2016 draga úr vexti kaupmáttar launa. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur varað við hratt versnandi verðbólguhorfum á árinu og skemmst er að minnast að stýrivextir Seðla­bankans voru hækkaðir um 0,5% í bæði júní og í júlí og eru nú 5,5%. Í fundargerð peninga­stefnunefndar frá 18. nóvember sl. er bent á hve verðbólguhorfur eru viðkvæmar vegna kjara­samninga: „Óvissuþættirnir sem fjallað er um í nóvemberhefti Peningamála undirstrika að verðbólguhorfur til næstu þriggja ára gætu hæglega breyst frá því sem gert er ráð fyrir í grunnspánni. Verðbólguþrýstingur kann að vera vanmetinn sem að öðru óbreyttu myndi kalla á hærra vaxtastig en felst í grunnspánni til að halda verðbólgu í markmiði, ef t.d. fyrirtæki velta kostnaðarauka nýgerðra kjarasamninga í ríkari mæli út í verðlag en gert er ráð fyrir í spánni eða ef áhrif mikillar tímabundinnar hækkunar kaupmáttar ráðstöfunartekna á einka­neyslu og húsnæðisverð eru vanmetin.“

II. Áframhaldandi skerðingar á tekjumöguleikum ríkissjóðs.
Skattkerfisbreytingar í þágu hinna efnameiri.
    Í skattastefnu yfirvalda endurspeglast hin raunverulega pólitíska stefna ráðandi ríkis­stjórnar enda er skattkerfið ekki aðeins nauðsynlegt tæki til að afla tekna til samfélagslegra verkefna heldur hefur uppbygging skattkerfisins áhrif á samfélagið allt; hvort sem um er að ræða skiptingu skattbyrði, eignamyndun og tekjudreifingu. Vinstri hreyfingin – grænt fram­boð leggur því til að horfið verði frá breytingum á þrepaskipta skattkerfinu og þeim skatta­lækkunum sem þær fela í sér. Fremur verði fjármunum ríkissjóðs og þeim fjármunum sem ríkisstjórnin er búin að vera að gefa frá sér varið til þess að efla samfélagslega innviði eins og að rétta stöðu þeirra sem verst standa í samfélaginu
    Gert er ráð fyrir að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum lækki tekjur ríkissjóðs um ríflega 7 milljarða kr. á næsta ári og um 14–15 milljarða kr. á ári til ársins 2019. Lækkunin gæti numið verulegum fjárhæðum. Með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 heldur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áfram á sömu braut að afsala almenningi mikilvægum tekjum á viðkvæmum tímum þegar íslenskt efnahagslíf að er að rísa á fætur úr rústum efna­hagshrunsins. Núverandi ríkisstjórn ræðst í þessu frumvarpi í enn frekari breytingar á skatt­kerfinu sem stuðla að auknum ójöfnuði og ganga allar í þá átt að draga úr skattheimtu og létta byrðar efnaðasta hluta landsmanna og láta hina efnaminni kosta æ stærri hluta af sam­eiginlegum útgjöldum okkar allra. Ríkisstjórnin kallar þetta einföldun skattkerfisins þótt það sé stefnumál og markmið hennar í raun að hverfa frá tekjuskiptu skattkerfi sem fyrrverandi ríkisstjórn kom á til aukinnar jöfnunar. Í raun má segja að fjármálaráðherra hafi náð ágætum árangri í viðleitni sinni ef hún er metin út frá forsendum nýfrjálshyggjunnar um lága skatta og litla samneyslu.
    Í fjárlögum fyrir árið 2015 var áherslan fyrst og fremst á breytingar á virðisaukaskatts­kerfinu og var þá lægra skattþrepið hækkað úr 7% í 11%. Hugur fjármálaráðherrans stóð þó til enn frekari hækkunar neðra þrepsins, þ.e. úr 7% í 14%, en viðspyrna stjórnarandstöðu og verkalýðshreyfingar kom í veg fyrir þá hækkun enda koma þessar breytingar verst við þá sem minnstar hafa tekjurnar. Nú hyggst ríkisstjórnin ráðast í enn frekari skattabreytingar og virð­ist markmiðið að reyna að snúa til baka allri þeirri tekjujöfnun, sem skattabreytingar síðustu ríkisstjórnar miðuðu að. Breytingarnar í tíð núverandi ríkisstjórnar á virðisaukaskatti og tekjuskatti sem og afnám auðlegðarskatts hafa allar þegar haft neikvæð áhrif á tekjujöfnun. Skattalækkunin er auk þess algerlega úr samræmi við ítrekaðar óskir Seðlabankans um að ríkisstjórnin styðji með ríkisfjármálastefnu við peningamálastefnu bankans. Skattalækkunin eykur þvert á móti líkur á að Seðlabankinn hækki vexti í kjölfarið til að draga úr eftirspurn. Nánari rökstuðning gegn skattkerfisbreytingum ríkisstjórnarinnar má finna í minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um ýmsar forsendur fjárlaga.

Óútfærð fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs.
    Hlutur tryggingagjalds sem rennur í fæðingarorlofssjóð hefur lækkað úr 1,28 prósentustigi í 0,65. Sífellt stærri hluti tryggingagjaldsins rennur til annars en afmarkaðara verkefna og ekki enn útfært hvernig fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs verður háttað, þrátt fyrir að ríflega ár sé liðið síðan félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði nefnd til að skila tillögum til úrbóta varðandi stöðu sjóðsins. Í sameiginlegum tillögum stjórnarandstöðunnar er gerð tillaga um að barnafjölskyldum verði mætt með hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500.000 kr. og barnabætur hækki með hækkun á skerðingarviðmiðum.

Umhverfis- og auðlindaskattar afnumdir eða lækkaðir.
    Það er umhugsunarvert á tímum þegar þjóðir heims eru saman komnar á einni mikilvæg­ustu ráðstefnu um loftslagsmál og samhugur ríkir meðal þeirra um að draga úr losun jarð­efnaeldsneytis, þá sé áhersla íslensku ríkisstjórnarinnar að leggja af umhverfis- og auðlinda­skatta sem er eitt allra öflugasta tækið sem ríkisstjórnir hafa í baráttunni fyrir framtíðar­kynslóðir þegar kemur að verndun umhverfis okkar. Þó eru umhverfis- og auðlindaskattar hvorki margir né margþættir hér á landi Slíkir skattar felast einkum í kolefnisgjaldi sem greitt er í ríkissjóð af fljótandi jarðefnaeldsneyti (gasolíu, dísilolíu, bensíni, flugvéla- og þotu­eldsneyti og brennsluolíu). Kolefnisgjald er lagt á og innheimt samkvæmt lögum en í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var kolefnisgjaldið lækkað um 1%. Það sama á við um bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald. Þessum lækkunum á neyslusköttum (krónutölusköttum og gjaldskrám) var lætt inn af hálfu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamn­inga og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir þeim tengdar sem gerð var á Þorláksmessu árið 2013. Eins og aðrar skattalagabreytingar dregur umrædd ráðstöfun fram þá stefnu stjórn­valda að auka neyslu og hvetja til hennar með öllu móti, jafnvel þegar í hlut á neysla sem óumdeilanlega veldur umhverfisspjöllum eins og brennsla jarðefnaeldsneytis.
    Í lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsaloft­tegunda er kveðið á um fjárhæð losunargjalds. Mun það „miðað við meðalverð losunar­heimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. ágúst árið áður.“ Þetta sýnir eitthvað annað en vilja til að standa sig í því að nota skattlagningarvaldið í þágu loftslagsmála.
    Þá er í lögum nr. 22/2914, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015, kveðið á um að tekjur af uppboðnum losunarheimildum renni í ríkissjóð í stað Loftslags­sjóðs, en sjóðnum þeim er ætlað að „styðja við verkefni er stuðlað geta að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og aukinni þekkingu almennings á loftslagsbreytingum af mannavöldum, afleiðingum þeirra og mögu­legum aðgerðum til að sporna við þeim“ (sjá IX. kafla laga um loftslagsmál). Það blasir við að með þessu er verið að veikja markaðar tekjur ríkissjóðs í loftslagsmál og láta þær þess í stað renna beint í ríkissjóð þar sem þær eru ekki eyrnamerktar loftslagsmálum. Til að mæta skuldbindingum Íslands vegna loftslagsvandans gerir stjórnarandstaðan sameiginlega tillögu að auknir fjármunir fari til fjárfestingar í græna hagkerfinu, almenningssamgangna og í Loftslagssjóð.

Lýðheilsuskattar lækkaðir og felldir niður.
    Einnig má nýta skattkerfið til að ýta undir og stuðla að bættri lýðheilsu og koma í veg fyrir almennt heilsutjón með fyrirbyggjandi aðgerðum. Því miður virðist það ekki vera stefna núverandi ríkisstjórnar eins og lækkun hennar á gjaldi á áfengi og tóbak ber með sér sem og ákvörðun á að fella sykurskattinn niður 1. janúar 2016 en vitað er að afleiðingar of mikillar sykurneyslu birtast í ýmiss konar sjúkdómum og kvillum sem þegar leggjast þungt á heilsu landsmanna og munu gera það í enn frekari mæli í framtíðinni. Í þessum efnum hefur verið talað um faraldur þegar kemur að nýgengi í svokallaðri sykursýki tvö. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og núverandi ríkisstjórn setti á laggirnar sérstaka ráðherranefnd um lýð­heilsumál skuli ráðstafanir hennar í ríkisfjármálum miða að því að lækka skatta á óhollustu en hækka verð á hollustu. Loks verður ekki hjá því litið að nefna áherslu þingflokks Sjálf­stæðisflokksins með formann flokksins í broddi fylkingar á aukið aðgengi að áfengi þrátt fyrir andstöðu allra sem best þekkja til lýðheilsumála og heilbrigðismála almennt, að ekki sé minnst á nýsamþykkta heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Lækkun veiðigjalds.
    Ekki er hægt að sleppa því að tala og rita um tekjur ríkissjóðs og afsal á þeim í tíð ríkis­stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks án þess að minnast á þá gríðarlegu fjármuni sem ríkisstjórnin afsalaði ríkissjóði nánast strax við stjórnarskiptin 2013 með breytingum á veiðigjaldi. Ljóst er að með breytingunum á veiðigjaldinu í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ríkissjóður nú þegar orðið af milljörðum króna og allt útlit fyrir að þær tekjur fari áfram lækkandi miðað við nýjustu tölur frá Fiskistofu Samkvæmt þeim tölum má sjá að lækkunin tvö sl. fiskveiðiár frá árinu 2012/2013, er 8,7 milljarðar kr. og í reynd nokkru meiri ef um tölur á verðlagi hvers árs er að ræða. Veiðigjöldin á síðasta fiskveiðiári er í heild ekki nema 7,7 milljarðar kr. og munar þá ekki miklu að ríkisstjórninni hafi tekist að þurrka út að fullu hugsunina um sérstakt afkomutengt veiðigjald sem leggist ofan á almennt gjald sem taki mið af kostnaði við helstu þjónustustofnanir sjávarútvegsins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sömu þróun má sjá í lækkun veiðigjalda í fjárlagaáætlun ársins 2015 sem er að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins rúmlega 2 milljarða kr. og er einkum rakin til breyttra lagaákvæða sem jafna álagningu þeirra betur yfir fiskveiðiárið og hliðra henni þar með meira. Á fiskveiðiárinu 2015/2016 verður veiðigjald lagt á mánaðarlega og gjalddagi verður 1. hvers mánaðar vegna veiða næstsíðasta mánaðar. Veiðigjald verður því lagt á sem næst rauntíma í stað þess að gjöldin séu að stærstu leyti lögð á handhafa aflaheimilda við úthlutun við upp­haf fiskveiðiárs og síðan innheimt með fjórum jöfnum gjalddögum, eins og fyrirkomulagið var m.a. á fiskveiðiárinu 2014/2015. Þetta leiðir til þess að álagning veiðigjalda verður lægri á almanaksárinu 2015 þar sem hærri fjárhæð fiskveiðiársins 2015/2016 lendir á árinu 2016 en ella hefði orðið. Í þessu sambandi minnir Vinstri hreyfingin – grænt framboð á að ríkis­stjórnin hefur lækkað veiðigjöldin verulega frá því að hún tók við stjórnartaumunum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Veiðigjald fyrir veiðiheimildir.
Millj. kr. Frv. 2016 2015 2014 2013 2012 2011 2010 2009 2008
Veiðigjald fyrir veiðiheimildir 7.830 7.320 9.770 13.490 7.830 2.470 1.250 170 0

    Rétt er benda á að veiðigjöld hafa ekki lækkað vegna versnandi afkomu sjávarútvegsins sem hefur verið afar góð á undanförnum árum heldur vegna pólitískra ákvarðan stjórnvalda. Það verður að teljast sérkennileg forgangsröðun hjá stjórnvöldum að lækka tekjur ríkissjóðs, í þessu tilfelli af nýtingu sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar á sama tíma og ekki er hægt að fjármagna svo sómi sé að rekstur grunnstofna samfélagsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


III. Opinberar fjárfestingar og atvinnufjárfestingar.
    Boðað er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og vísað er til þess í Þjóðhagsspá 2014– 2019 að opinber fjárfesting muni ná hámarki á yfirstandandi ári en minnka svo hratt svo á næstu árum. sbr. töflu bls. 18 í frumvarpi til fjárlaga, stefna og horfur. Opinber fjárfesting er hins vegar í sögulegu lágmarki og þyrfti að aukast þótt ekki væri nema til að bæta upp sparnað í innviðum allt frá efnahagshruni. Í þessu fjárlagafrumvarpi eru t.d. ekki veittir nauð­synlegir fjármunir í Vegagerðina til eflingar og viðhalds á samgöngukerfi landsins, einungis er bætt við smávægilegum fjárhæðum á milli umræðna um fjárlögin. Sú ákvarðanataka og dreifing opinberra fjármuna virðist þar með vera byggð á geðþóttaákvörðunum, ófagleg en ekki grundvölluð á útreiknaðri þörf Vegagerðarinnar né í samræmi við þá gríðarlegu upp­söfnuðu þörf í vega- og samgöngukerfinu eftir umbótum og viðhaldi, sér í lagi vegna gríðar­legrar fjölgunar ferðamanna til landsins og aukins umferðarþunga í takti við þá fjölgun. Þing­ið hefur ekki fengið tækifæri til að ræða og afgreiða samgönguáætlun sem er hinn lögbundni farvegur til að forgangsraða fjármunum til samgöngumála og raunar virðast fjárlögin gera ráð fyrir jafnvel rýrari aðgerðaáætlun en sést hefur í þeirri tillögu innanríkisráðherra að sam­gönguáætlun sem ekki hlaut afgreiðslu síðast þegar hún var lögð fram á Alþingi 27. maí 2015
    Skýring fjármálaráðherra á hröðum samdrætti í atvinnuvegafjárfestingu er að spáð er minni stóriðjufjárfestingu á árunum 2018–2019. Engar tillögur, stefnu eða sýn eru að finna í fjárlagafrumvarpinu um hvers kyns fjárfestingar gætu verið í farvatninu aðrar en stóriðju­framkvæmdir. Aðeins er minnst á í einni setningu á bls. 20 að stór fjárfestingarverkefni séu í gangi í ferðaþjónustu, einkum hótelbyggingar. Engar nýjar fjárfestingar hins opinbera eru boðaðar af hálfu núverandi ríkisstjórnar né hvernig sporna skal við þeim þensluáhrifum sem eru á góðri leið með að skapast í þjóðfélaginu vegna þessa ójafnvægis, einungis talað um að mikilvægt sé að ríki og sveitarfélög verði á varðbergi og hugi að mótvægisaðgerðum. Sama er uppi á teningnum þegar kemur að atvinnuvegafjárfestingu. Þar mun líka eiga sér stað var­hugaverð þróun næstu árin en eins og kemur fram í Þjóðhagsspá mun atvinnuvegafjárfesting lækka úr 20,8% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í 1,5% árið 2017 eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Samkvæmt spánni verður hún neikvæð árið 2018. Ekkert er gefið uppi í ríkisfjármálastefnu hver sé stefna ríkisstjórnarinnar þegar kemur að fjárfestingum. Þess vegna er aðkallandi að fjármálaráðherra skýri betur hver stefna hans sé þegar kemur að fjár­festingum, bæði í atvinnuvegafjárfestingu og í opinberum fjárfestingum, þó sér í lagi nú þegar útséð er með að fjármagnshöft verði alfarið losuð í náinni framtíð og brýnt er að hækka fjárfestingarstig.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


IV. Ófrágengin mál sem vísað er til annarrar umræðu.
    Hagstofa Íslands áætlar í endurskoðaðri þjóðhagsspá að atvinnuleysi verði 2,9% á árinu 2016 samanborið við 3% eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Með hliðsjón af því er því lögð til 350 millj. kr. lækkun á fjárheimild til greiðslu atvinnuleysisbóta. Vissulega hefur atvinnuleysi minnkað árin frá efnahagshruni en það hlýtur að vera verulegt áhyggjuefni fyrir yfirvöld hversu mikið og hversu vaxandi atvinnuleysi er meðal háskólamenntaðs fólk í landinu en hlutfall háskólamenntaðra af heildarfjölda atvinnulausra hefur hækkað úr 18% í 25% frá árinu 2013.
    Þrátt fyrir þessa alvarlegu stöðu kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að ríkisstjórnin undir­býr breytingar á skattalöggjöfinni til að greiða fyrir ráðningu erlendra sérfræðinga í tíma­bundin sérhæfð verkefni. Sem er líklega góðra gjalda vert en aftur á móti er ekki að finna neinar sérhæfðar aðgerðir í fjárlagafrumvarpinu eða ríkisfjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar til að fjölga atvinnumöguleikum háskólamenntaðra hér á landi.

Húsnæðismál – Íbúðalánasjóður.
    Frumvörp félagsmálaráðherra um endanlega útfærslu húsnæðismála og um framtíð Íbúða­lánasjóðs og mörg mál er varða starfsemi hans lágu ekki fyrir við framlagningu frumvarps til fjárlaga en hluti þeirra er að koma fram nú á síðustu dögum þingsins. Það er ólíðandi að ætla þinginu að ræða áhrif húsnæðismálanna á fjárlög á hundavaði á síðustu dögum fyrir jól. Á þessari stundu liggur það eitt fyrir að breytingarnar sem unnið er að leiða til þess að Íbúða­lánasjóður muni ekki starfa áfram í óbreyttri mynd en óljóst er að hve miklu leyti breyting­arnar hafi áhrif á rekstrarafkomu hans.
    Við undirbúning frumvarpsins láðist að fella niður heimild þar sem ekki er gert ráð fyrir lánveitingum til leigufélaga samkvæmt því fyrirkomulagi sem í gildi hefur verið. Þess í stað var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál frá 28. maí sl. boðaður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi sem ætlunin er að fjármagna með stofnframlögum ríkis og sveitar­félaga og beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins, en við framlagningu fjárlagafrumvarpsins hafði þessi grunnur ekki enn verið lagður. Alltof margir búa við óöryggi í húsnæðismálum og ráða ekki við háan húsnæðiskostnað. Nú þegar kjörtímabilið er ríflega hálfnað er átakan­legt að sjá þvílíkt úrræðaleysi einkennir ríkisstjórnina þegar kemur að húsnæðismálum enda ekkert verið gert til að mæta raunverulegum vanda leigjenda og búseturéttarhafa þrátt fyrir fögur fyrirheit.

V. Áherslur og tillögur 2. minni hluta.
Heilbrigðismál.
Landspítalinn.
    Að mati Landspítalans eru kostnaðaráhrif kjarasamninga 400 millj. kr. umfram launabætur og er þá búið að taka tillit til þeirrar endurskipulagningar á vinnufyrirkomulagi lækna sem taka á gildi 1. janúar 2016 og lækkar kostnað um 175 millj. kr. Hluti af afkomubata ríkissjóðs felst í því að reka Landspítalann á horriminni. Stjórnarmeirihlutinn segist forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins en við blasir umtalsverður vandi sem ekki er leystur með breyt­ingartillögum meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið.
    Stjórnarandstaðan leggur því til aukna fjármuni í rekstur, viðhald og launabætur enda hefur forstjóri spítalans fært rök fyrir því að töluvert hafi vantað upp á að fjármögnun spítalans sé í samræmi við verkefni hans. Það stafar m.a. af því að verkföll á yfirstandandi ári drógu úr kostnaði til skamms tíma sem væntanlega á eftir að skella á spítalann af fullum þunga á árinu 2016. Þá hefur viðhaldi ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti og ljóst að fjár­magn til viðhalds sjúkrahússins er hlutfallslega afar lítið miðað við sambærilegar stofnanir annars staðar á Norðurlöndum sem gerir það að verkum að viðhaldsþörf hefur safnast upp með tilheyrandi vandkvæðum.
    Ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar við endurnýjun Landspítalans og virðist þess langt að bíða að landsmenn njóti þjónustu eins og best gerist annarsstaðar þrátt fyrir að starfsmenn stofnunarinnar leggi sig alla fram. Sérlega bagalegt hefur verið að ráðherrar tjá sig með ger­ólíkum hætti um staðsetningu sjúkrahússins og nægir þar að nefna forsætisráðherra og heil­brigðisráðherra. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram fullmótaðar tillögur um með hvaða hætti unnt er að fjármagna bygginguna og nauðsynleg tækjakaup. Með því að leggja auðlegðarskatt á þann hóp sem á mestar eignir í landinu má ljúka fjármögnun á þess­um nauðsynlegu framkvæmdum innan tiltekinna tímamarka. Vinstri hreyfingin – grænt fram­boð hvetur því til þess að skatturinn verði lagður á og byggingin rísi hratt á næstu árum, öll­um landsmönnum til hagsbóta.

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Staðan á rekstri sjúkrahússins á Akureyri er ekki nógu góð vegna fjársveltistefnu ríkis­stjórnarinnar. Til að halda rekstri sjúkrahússins á Akureyri óbreyttum þarf 110 millj. kr. framlag til rekstursins til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Að öðrum kosti þarf að gera skipulagsbreytingar á starfseminni þar sem rúmlega 70 millj. kr. halli er á rekstri sjúkrahússins fyrstu níu mánuði þessa árs. Vinnuhópur um uppbyggingu legudeilda við Sjúkrahúsið á Akureyri telur nýbyggingu eina raunhæfa kostinn til að leysa vandann sem við blasir í húsnæðismálum þess. Brýnt er að heilbrigðisráðherra leggi fram framtíðarstefnu og aðgerðaráætlun fyrir sjúkrahúsið í höfuðstað Norðurlands.

Heilbrigðisstofnanir.
    Heilbrigðisstofnanir eru enn fjársveltar og a.m.k. tvær þeirra munu vart ná endum saman. Svo virðist sem sameining þeirra hafi ekki verið nægilega vel undirbúin. 2. minni hluti mót­mælir fjársvelti þessara mikilvægu hornsteina velferðar í héraði enda mikilvægt að lands­menn njóti allir öflugrar heilbrigðisþjónustu, hvar sem þeir búa.

Almannatryggingar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir 9,6% hækkun lífeyristrygginga frá og með næsta ári en leið­réttingar til samræmis við lægstu laun er þar ekki að finna. Eðlilegt hlýtur að vera að þessi hópur njóti sannmælis og brýnt að leiðrétta kjör eldri borgara og öryrkja því ekki getur þessi hópur farið í verkfall til að fá kjör sín bætt. Samkvæmt nýlegri álitsgerð Öryrkjabandalagsins voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega, sem býr einn og fær greidda heim­ilisuppbót, um 187.507 kr. á mánuði en 172.000 kr. hjá þeim sem bjó með öðrum, 18 ára eða eldri og miðast þessar tölur við árið 2014. Í sömu álitsgerð er reiknuð framfærsluþörf en sam­kvæmt álitsgerðinni þarf barnlaus einstaklingur, sem býr einn í eigin húsnæði, 348.537 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði (482.846 kr. fyrir skatt) til að geta mætt eðlilegum útgjöldum. Þessar tölur sýna svart á hvítu að öryrkjar eiga ekki möguleika á að lifa mannsæmandi lífi af tekjum sínum.
    Þegar litið er til tekna eldri borgara kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ernu Indriðadóttur, varaþingmanns, að 70% eldri borgara eru með tekjur undir 300.000 kr. ef miðað er við samanlagðar tekjur að meðtöldum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Allir ættu að geta sameinast um að sinna þessum hópum af meiri sóma en nú er gert.

Geðheilbrigðismál.
    Nauðsynlegt er að bæta úrræði í geðheilbrigðismálum og þingsályktunartillaga um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem lögð var fram nú í nóvember er skref í þá átt.
    Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir 111,8 millj. kr. á næsta ári í þrjár aðgerðir. Tvær þeirra er að finna í fjárlögum en eina vantar, aðgerð A.9 „Unnið verði að því að mæta upp­safnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu“. Stjórnarandstaðan leggur til að úr því verði bætt og leggur til í sínum breytingartillögum þær 33,1 millj. kr. sem vantar. Ef þessir fjármunir fást greiðir það fyrir því að geðfötluðu fólk sem nú dvelst á Landspítalanum vegna skorts á búsetuþjónustu bjóðist búsetuúrræði og það fái þjónustu við hæfi sem verður til þess að geðfatlað fólk þarf ekki að dvelja á sjúkrahúsi vegna skorts á búsetuúrræðum í framtíðinni.

Kynbundið ofbeldi.
    Tölfræði um kynbundið ofbeldi hérlendis er sláandi og sýnir fram á það að stór hluti kvenna á Íslandi eru brotaþolar slíks ofbeldis og stór hluti ungra stúlkna verðandi brotaþolar. Stjórnarandstaðan leggur til 200 millj. kr. til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi, treysta burði réttarvörslukerfisins til þess að koma lögum yfir kynferðisbrotamenn og að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota. Afar mikilvægt er að styrkja m.a. lögreglu, ákæruvald og tryggja menntun fagstétta og allra þeirra sem veita brotaþolum þjónustu og koma að réttarúrræðum þeim til handa.

Menntakerfið.
Framhaldsskólar.
    Fjölbreytni og sveigjanleiki hefur verið einn af helstu kostum framhaldsskólakerfisins en núverandi ríkisstjórn er smám saman að breyta menntakerfinu í gegnum fjárlög án víðtækrar faglegrar umræðu í samfélaginu og á þingi. Unnið er að því leynt og ljóst að veikja litlu skól­ana á landsbyggðinni og draga þannig úr tækifæri heimafólks til fjölbreytts námsframboðs í sinni heimabyggð. Sama stefna hefur einnig verið þvinguð í gegn í stærri þéttbýliskjörnum. Bent er á dýrari leiðir einkaskólanna eða símenntunarmiðstöðva fyrir þá sem eru eldri en 25 ára sem verður jafnvel til þess að fólk flyst búferlum. Aukin framlög með hverjum nemanda eru því fengin með aðgangstakmörkunum sem veikir rekstur smærri skólanna. Gott aðgengi að námi er litlum samfélögum mikilvægt, eykur menntunarstig og líkur á áframhaldandi bú­setu í dreifðum byggðum.
    Meiri hlutinn leggur fram 15 millj. kr. breytingartillögu til að mæta fjölgun fjarnemenda í fámennum framhaldsskólum og einnig 5 millj. kr. til dreifnáms á Vopnafirði sem er góð viðbót við starfsemi framhaldsskólanna auk þess að vera mun kostnaðarminna fyrir fjölskyld­ur dreifðra byggða. Stjórnarandstaðan leggur til aukna fjármuni til að hægt sé að taka á móti 25 ára og eldri í bóknám framhaldsskólanna.

Háskólar.
    Samkvæmt nýrri skýrslu OECD eru framlög á hvern háskólanema á Íslandi mjög lág og langt frá því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Eigi að síður er öflug háskólamenntun mikil­vægasta leiðin til að tryggja hagsæld til framtíðar, atvinnuuppbyggingu sem byggist á frum­kvæði og nýsköpun einstaklinga en snýst ekki um miðstýrðar lausnir og að byggja hér upp það þekkingarsamfélag sem allir stjórnmálaflokkar segjast stefna að í orði.
    Samþykkt Alþingis um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands hefur ekki verið fylgt eftir en þessi sjóður hefur verið bjargráð Háskóla Íslands eftir niðurskurð á krepputímum. Stofnun hans var samþykkt á Alþingi í tilefni af hundrað ára afmæli Háskóla Íslands og hefur sjóður­inn einkum verið nýttur til að efla nýliðun og rannsóknir. Ætlunin var að nefnd stjórnvalda og skólans myndi gera áætlun um fjárveitingar á árunum 2016–2020. M.a. var markmiðið að vinna að því að hækka framlög á hvern nemanda þannig að Ísland næði OECD-meðaltali og síðar meðaltali nágrannalandanna. Ekkert hefur hins vegar spurst af henni, forsætis­ráðherra hefur ekki séð sér fært að svara framkomnum fyrirspurnum um málið og engin merki eru um það í frumvarpinu að efla eigi sjóðinn eins og ætlunin var.
    Lagðar eru til breytingar af hálfu ríkisstjórnarinnar sem lagar stöðu háskólanna á lands­byggðinni að einhverju leyti en stefnuleysið er allt um lykjandi og skýra faglega framtíðarsýn vantar. Sem dæmi má nefna að Háskólinn á Bifröst fær 50 millj. kr. til að tryggja hallalausan rekstur á meðan Háskólinn á Akureyri hefur haldið sig innan fjárlagaramma með miklum aðhaldsaðgerðum og í raun fengið að gjalda þess.
    Landbúnaðarháskólarnir hafa átt undir högg að sækja þegar kemur að fjárveitingum og virðist hugur núverandi menntamálaráðherra stefna í þá átt að þeir verði sameinaðir Há­skólanum á Bifröst og verði því einkavæddir. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur þó til að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri fái 58 millj. kr. tímabundið framlag sem eyrnamerkt er samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna rannsókna í þágu landbúnaðar og Hólaskóli fær 25 millj. kr. tímabundið framlag til að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla. Afar mikilvægt er að langtímastefna liggi fyrir þannig að skólarnir þurfi ekki að búa við geðþóttaframlög hverju sinni.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Í frumvarpi til fjárlaga kemur fram undir liðnum Jöfnun á námskostnaði á bls. 283: „Lagt er til að 50 millj. kr. verði millifærðar til Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að mæta auknum umsýslukostnaði.“ Nú ber svo við að helsta tekjuöflun meiri hluta fjárlaganefndar er fólgin í því að draga úr fjárveitingum til Lánasjóðsins vegna fækkunar lántakenda. Þetta vekur at­hygli enda verið að draga úr aðstoð við nemendur á landsbyggðinni með því að taka af hinum svokallaða dreifbýlisstyrk.

Stafræn íslenska.
    Á undanförnum árum hafa komið fram ýmsar skýrslur um nauðsyn þess að styrkja ís­lenskuna í stafrænum heimi og gera hana gjaldgenga í samskiptum okkar við tölvur og tölvu­stýrð tæki. Hinn 12. maí 2014 var á 143. löggjafarþingi samþykkt þingsályktun um aðgerða­áætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni. Skipuð var nefnd sem skilaði af sér áætlun um aðgerðir til þess að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi.
    Skýrsla sem ber heitið Íslensk tunga á stafrænni öld / The Icelandic Language in the Digital Age er afrakstur viðamikils evrópsks verkefnis, META-NET, sem stóð yfir árin 2011–2013 og tók til 30 evrópumála. Þar var könnuð staða máltækni fyrir tungumálin 30 og rafrænan stuðning við þau. Niðurstaða þessarar könnunar var sú að íslenska stendur næstverst af málunum 30 á sviði máltækni.
    Vorið 2015 var Máltæknisjóður stofnaður sem úthluta á m.a. fjármunum til þessa verkefn­ins en sjóðurinn fær einungis 30 millj. kr. sem er þriðjungur af því sem nefndin lagði til. Ef vel ætti að vera þyrfti að verja 200 millj. kr. á ári næstu fimm árin til að við missum ekki af hinni hröðu tækniþróun. Það þarf að bregðast hratt við og vekur furðu að þetta mál fái ekki meiri athygli í fjárlagafrumvarpinu þar sem fjármálaráðherrann gerði þetta sjálfur að sérstöku umtalsefni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október sl. auk þess sem mennta- og menn­ingarmálaráðherra lýsti því yfir með mjög skýrum hætti á degi íslenskrar tungu að styðja bæri myndarlega við verkefnið.

Fjárhagur Ríkisútvarpsins.
    
Svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn eigi erfitt með að leyfa Ríkisútvarpinu að sinna hlutverki sínu í friði. Stjórn RÚV kom á fund fjárlaganefndar og gerði henni ljóst að áform um að lækka útvarpsgjaldið öðru sinni munu þýða gagngerar breytingar á starfsemi þessa eina ljósvakamiðils í landinu, sem er í eigu almennings og starfar í almannaþágu, og samdrátt á öllum verkefnasviðum. Lækkunin mun veikja starfsemi RÚV svo mjög að vegið er að lög­bundnu hlutverki stofnunarinnar. Með þessu eru stigin óheillaskref fyrir miðlun og sköpun menningar í landinu, vandaðan og óháðan fréttaflutning og gagnrýna umræðu um stjórnmál og almenn þjóðfélagsmál.

Málefni fatlaðs fólks.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að mæta fjárvöntun sveitarfélaganna vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks. Uppgjör fyrir árin 2013–2014 sýna að staðan er neikvæð um 1,2 milljarða kr.
    Nú er svo komið að sveitarfélög telja sig jafnvel nauðbeygð til að skila málaflokknum til ríkisins sem eykur líkur á að þjónustan og þar með lífskjör einstaklinganna versni. Ríkis­stjórnin hefur virt fyrirmæli laga um að setja lög um NPA-þjónustu við fatlað fólk að vettugi. Það er samdóma álit sveitarstjórnarmanna að samstarfið við ríkisstjórnina á þessu sviði sé ekki eins og það á að vera. 2. minni hluti hvetur ríkisstjórnina til að koma málaflokknum í sómasamlegt horf.

Öldrunarmál.
    Ríkisstjórninni hefur mistekist að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld enda vantar alla stefnumörkun og framtíðarsýn í málaflokkinn. Öldruðum mun fjölga hratt á næstu árum og því er mikilvægt að þjóðfélagið sé tilbúið til að taka við þeim breytingum sem af því leiðir. Eins og staðan er nú skilar ríkisstjórnin auðu og hvetur 2. minni hluti ríkisstjórnina til að leggja fram raunhæfar, fullfjármagnaðar framtíðarlausnir í þessum mikilvæga málaflokki.

Samgöngumál.
    Ríkisstjórnina skortir algerlega framtíðarsýn í samgöngumálum og engin samþykkt sam­gönguáætlun liggur fyrir. Samgönguráð hefur yfirumsjón með gerð tillagna að samgöngu­áætlun en ráðið vinnur nú að gerð stefnumótandi samgönguáætlunar fyrir tímabilið 2015– 2026 ásamt verkefnaáætlun fyrir fyrsta fjögurra ára tímabil hennar, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 33/2008. Ljóst er að ekki er við ráðið að sakast að áætlunin liggi ekki fyrir enda af nógu að taka til að leggja fram áætlunina. Ástæða fyrir því að áætlunin liggur ekki fyrir er eins og áður sagði er skortur á stefnumótun og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar. Í tillögum ríkisstjórn­arinnar er lögð til 100 millj. kr. hækkun fjárveitingar til að styrkja vegakerfi landsins umfram fjárhæð fjárlagafrumvarpsins en hún dugir skammt í ljósi þeirra verkefna sem framundan eru. Þá er lögð til 200 millj. kr. hækkun framkvæmdaliðar Vegagerðarinnar en þær framkvæmdir sem þar eru tilgreindar eru ekki á forgangslista Vegagerðarinnar. Góðar samgöngur eru brýnn þáttur í öryggismálum landsins, mikilvægt byggðamál og nauðsynlegar til að tryggja innviði samfélagsins. Landshlutasamtökin standa frammi fyrir svo alvarlegum fjárskorti að þau geta ekki rekið almenningssamgöngur með fullnægjandi hætti og ljóst að vandi þeirra allra verður ekki leystur með því framlagi sem meiri hluti fjárlagnefndar leggur til. 2. minni hluti telur mikilvægt að ríkisstjórnin leggi fram lagafrumvarp um almenningssamgöngur sem leysi þetta vandamál.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.
    Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar við fjármögnun framkvæmda á ferðamannastöðum hefur verið í samræmi við skort á stefnu og framtíðarsýn hennar í málaflokknum. Fjármögn­un sjóðsins fer fram á fjáraukalögum en ekki í fjárlögum en eins og kunnugt er eiga fjárauka­lög að vera leiðréttingarlög og fjármagna óvænta starfsemi en í fjárlögum er áætlanagerð og stefnumótun ríkisins sett fram og fjármögnuð. Ríkisstjórnin hefur snúið þessu við, andstætt markmiðum fjárreiðulaga. Vanáætlanir fjárlaga eru til vansa og búralegar björgunartilraunir í fjáraukalögum bæði bjaga og skemma alla áætlunargerð.
    Í fjárlögum fyrir árið 2015 var gert ráð fyrir 145,8 millj. kr. í framkvæmdasjóðinn. Á fjár­aukalögum fyrir sama ár dúkkar upp 850 millj. kr. viðbót inn í framkvæmdasjóðinn auk síðan 22 millj. kr. Svipuð „gæðaáætlun“ var uppi árið áður. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir 149 millj. kr. en sú upphæð var hækkuð upp í 749 millj. kr. fyrir aðra umræðu. Síðan er framkvæmdin meira og minna í uppnámi vegna síðbúinnar framsetningar fjármögn­unar sem ekki tekur mið af skipulagsþörf viðkomandi svæða og kostnaðarhlutdeild sveitar­félaga og landeigenda er allt of há miðað við þau njóta ekki tekna af fjárfestingum og eigum sínum. Nýjasta í þessum málaflokki er stofnun enn einnar nefndar, Stjórnstöðvar ferðamála, sem tekur til sín 80 millj. kr. án þess að færð hafi verið fyrir því rök að ekki hafi verið hægt að efla þau úrræði sem fyrir eru.

Sóknaráætlun landshluta.
    Ríkisstjórnin skar niður fjárframlög til sóknaráætlunar landshluta um leið og hún tók við stjórnartaumunum og sýndi þar með skoðun sína í verki á stefnu fyrrverandi stjórnar um að færa ákvörðunarvald heim í hérað. Fjárveitingar til sóknaráætlunar landshluta námu 400 millj. kr. á fjárlögum árið 2013 en ríkisstjórnin skar þau strax niður í 15 millj. kr. í fjárlaga­frumvarpi fyrir árið 2014. Eftir mikla viðspyrnu stjórnarandstöðunnar og sveitarstjórnarfólks vor fjárframlög síðan hækkuð í 100 millj. kr. og í fjárlagafrumvarpi 2015 var aftur lagt til 15 millj. kr. framlag en var aftur hækkað við aðra umræðu í 100 millj. kr. Í frumvarpinu nú er lagt til 145 millj. kr. framlag sem er að mati 2. minni hluta vart upp í nös á ketti fyrir átta landshlutasamtök. Við aðra umræðu voru settar 35 millj. kr. í menningarsamninga við sveitarfélög en verulega hefur hallað á fjárframlög til menningarstarfs á landsbyggðinni eins og 2. minni hluti hefur verið óþreytandi að benda á. Í stað þess að landshlutasamtökin fái fjármunina og unnið sé samkvæmt verklagi sóknaráætlana er meiri hluti fjárlaganefndar að draga út tiltekin verkefni og setja í þau viðbótarfjármuni. Þá eru settar á sérstakar nefndir með fulltrúum stjórnarflokkanna sem gera tillögur um ýmis verkefni í stað þess að nýta þau lýðræðislegu vinnubrögð sem áttu að einkenna sóknaráætlanirnar. Stefnuleysið og skortur á fagmennsku og framtíðarsýn birtist í hringlinu með fjárveitingar og afstaða til brothættra byggða landsins í niðurskurði fjárveitinga.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hvetur ríkisstjórnina til að láta af þessum fyrirætlunum og taka til hendinni við að byggja upp til framtíðar í hinum dreifðu byggðum.

    Hér að framan hefur fyrst og fremst verið drepið á ýmsa af ágöllum og vanköntum fjár­lagafrumvarps fyrir árið 2016. Einungis er stiklað á stóru enda er frumvarpið því miður ekki til þess fallið að efla og styrkja innviði samfélagsins eins og vert væri. Ríkisstjórnin heldur áfram á sömu braut í átt að flatri skattastefnu þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að slíkt stuðli að ójöfnuði. Þetta sést ef til vill einna best á þeirri þráhyggju núverandi ríkisstjórnar að „einfalda“ skattkerfið án tillits til afleiðinga þess fyrir ólíka tekjuhópa í landinu, lækka veiðigjöld á stórútgerð í einu mesta góðæri sjávarútvegsins og framlengja ekki hóflegan auðlegðarskatt á allra ríkustu einstaklinga landsins. Á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins sést þetta á þeirri sveltistefnu sem rekin er gagnvart heilbrigðis- og menntastofnunum landsins, lífeyrisþegum og opinberum stofnunum sem nauðsynlegar eru lýðræðinu í landinu, svo sem Ríkisútvarpinu. Ljóst er að þessi stefna ræðst ekki af nauðsyn á hagræðingu hjá hinu opin­bera heldur er um að ræða meðvitaða hugmyndafræðilega aðgerð sem gengur út á að grafa undan því samfélagi jöfnuðar og samhjálpar sem einkennt hefur norrænu þjóðirnar undan­farna áratugi.
    Eins og hér hefur verið rakið er stefna næstu ára leynt og ljóst tekin á að skapa hér sam­félag þar sem samneysla er svo lág að það stefnir velferðarsamfélaginu sem slíku í hættu. Slíkar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi eiga ekki að fara fram þegjandi og hljóða­laust. Þær verða ræddar – bæði af hálfu Vinstri grænna og almennings í landinu.

Alþingi, 8. desember 2015.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Neðanmálsgrein: 1
1     www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Peningastefnunefnd/Fundargerdir- 2015/Fundargerð%20peningastefnunefndar%20nóvember%202015.pdf